Algjörlega grandalaus

Reuters

Jens Kjartansson lýtalæknir segir að ábyrgðin í PIP-brjóstapúðamálinu liggi hjá frönskum stjórnvöldum. Í mörg ár hefur hann aðallega notað hina umdeildu PIP-sílikonpúða við brjóstastækkanir á stofu sinni. Jens segist hafa verið algjörlega grandalaus.

„Það kom mér algjörlega á óvart þegar þetta kom upp. Ég hef notað PIP-fyllingarnar langmest og satt að segja hafa þær reynst mér mjög vel alla tíð. Það er ekki fyrr en vorið 2010 sem ég fæ upplýsingar um hvað er í gangi með þetta fyrirtæki og hætti þá strax að nota þær. Ég var algjörlega grandalaus,“ segir Jens í samtali við Morgunblaðið.

Spurður hvert sé eftirlit íslenska ríkisins með innflutningi á læknatækjum eins og sílikoni svarar Jens að það sé ekki neitt. „Við erum í Evrópska efnahagssvæðinu og eftirlitsstofnanir innan Evrópusambandsins gefa út gæðastimpla sem eru túlkaðir þannig að hlutirnir séu læknisfræðilega í lagi til notkunar innan efnahagssambandsins sem við erum í,“ segir Jens.

„Ég mun að sjálfsögðu taka fyllingarnar í burtu ef konurnar vilja það en þetta snýst um kostnaðinn og hver á að standa undir honum,“ segir hann ennfremur.

Frá jólum hefur Jens unnið að því að hafa upp á þeim konum sem bera PIP-fyllingar. „Konunum verður öllum sent bréf og kallaðar inn í ómskoðun á brjóstum, fyrst þær með elstu fyllingarnar frá 2000 og svo kolll af kolli. Allt tekur þetta tíma en það er engin hætta,“ segir Jens.

Nánar verður fjallað um málið í Morgunblaðinu á morgun, en þar verður að finna ítarlegra viðtal við Jens.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert