Ekkert riðuveikitilfelli á síðasta ári

Ekkert nýtt tilfelli af riðuveiki greindist í sauðfé hér á landi á síðasta ári. Matvælastofnun segir að þetta sé í fyrsta riðuveikilausa árið síðan baráttan við þessa veiki hófst fyrir alvöru fyrir meira en 30 árum.

Riðuveiki er talin hafa borist til landsins með lifandi fé rétt fyrir aldamótin 1900. Smitefnið sem veldur veikinni er kallað príon og er eitt erfiðasta smitefni sem þekkt er og smitleiðir ekki allar þekktar, en þó fyrst og fremst með lifandi fé. Meðgöngutími veikinnar getur verið mjög langur, fé sem veikist er ólæknandi og sjúkdómurinn leiðir alltaf til dauða. 

Eitt riðutilfelli kom upp árið 2010 og tvö árið 2009. Þar áður greindust fimm til tíu tilfelli á ári og fyrir kom að tilfellin skiptu nokkrum tugum á ári.

„Því er ljóst að hinar gífurlega ströngu aðgerðir gegn þessari veiki hér á landi, sem eru þær ströngustu í heiminum, hafa verið að skila miklum árangri. Það er vissulega gleðiefni, en jafnframt er nauðsynlegt að taka skýrt fram að eðli smitefnisins og veikinnar er með þeim hætti að það má hvergi slaka á þeim varnaraðgerðum sem eru í gildi. Það á eftir að taka ár og jafnvel áratugi þar til hægt verður að lýsa því yfir að Íslands sé laust við riðuveikina. Því verða allir sem hér eiga hlut að máli að halda áfram að halda vöku sinni í þessari útrýmingarbaráttu sem hér hefur verið háð með góðum árangri. Það má ekki gerast að þeim miklu fórnum sem sauðfjárbændur hafa fært á liðnum árum og þeim mikla kostnaði sem þeir og ríkisvaldið hafa lagt í baráttuna, sé á glæ kastað," segir á vef Matvælastofnunar.


mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert