Ekki einhugur um ráðninguna

Þorvaldur Lúðvík Sigurjónsson
Þorvaldur Lúðvík Sigurjónsson mbl.is/Skapti Hallgrímsson

Ekki var einhugur innan stjórnar Atvinnuþróunarfélags Eyjafjarðar um ráðningu Þorvaldar Lúðvíks Sigurjónssonar í starf framkvæmdastjóra félagsins.

Samkvæmt upplýsingum mbl.is úr stjórn AFE sóttu um fjörutíu manns um starfið og þótti meirihluta stjórnar Þorvaldur Lúðvík hæfastur til að gegna starfinu.

Í fréttatilkynningu sem AFE sendi frá sér í vikunni vegna ráðningar Þorvalds Lúðvíks kemur fram að vegna fyrri starfa sinna hjá Saga Fjárfestingarbanka og sem framkvæmdastjóri hjá Kaupþingi til ársins 2006 hefur Þorvaldur Lúðvík aðstoðað sérstakan saksóknara í rannsóknum embættisins á málefnum Glitnis og Kaupþings. Stjórn AFE hefur kynnt sér þau mál og þykir ekki ástæða til að efast um hæfi hans vegna þeirra rannsókna.

Andrea Hjálmsdóttir, bæjarfulltrúi Vinstri grænna á Akureyri, gagnrýnir ráðningu Þorvalds Lúðvíks Sigurjónssonar í starf framkvæmdastjóra Atvinnuþróunarfélags Eyjafjarðar, í vikublaðinu Akureyri í gær.

Í fréttum RÚV í dag kom fram að Þorvaldur Lúðvík væri með stöðu sakbornings hjá embætti sérstaks saksóknara en eins og greint var frá á mbl.is á sínum tíma var Þorvaldur Lúðvík  einn þeirra sem voru yfirheyrðir í tengslum við rannsókn embættis sérstaks saksóknara á málum tengdum Glitni í nóvember 2010.

RÚV hefur eftir formanni stjórnar AFE, Geir Kristni Aðalsteinssyni, sem jafnframt er forseti bæjarstjórnar á Akureyri, að Þorvaldur Lúðvík hafi sjálfur upplýst stjórnina um sín mál og ekki hafi verið haft samband við embætti sérstaks saksóknara um stöðu Þorvalds Lúðvíks hjá embættinu.

Ekki náðist í Geir Kristin við vinnslu fréttarinnar.

Þorvaldur Lúðvík tekur við starfi framkvæmdastjóra AFE hinn 11. janúar nk.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert