Hækkanir á lendingargjöldum á innanlandsflugvöllum sem Isavia kynnti í gær þýða yfir 100 milljón króna kostnaðarauka fyrir Flugfélag Íslands. Boðaðar hafa verið frekari hækkanir á árinu sem þýða hækkun upp á 150 milljónir króna.
„Á kynningarfundi með notendum innanlandsflugskerfisins í gær voru kynntar gífurlega miklar hækkanir á notendur innanlandsflugvalla. Þannig munu lendingargjöld á Reykjavíkurflugvelli hækka um 72% og farþegagjöld á sama flugvelli hækka um 71%, auk þess mun flugleiðsögugjald hækka um 22%. Samtals munu þessar hækkanir þýða yfir 100 milljóna króna kostnaðaraukningu fyrir Flugfélag Íslands á þessu ári. Boðaðar hafa verið frekari hækkanir á næsta ári sem munu, ef af verður, þýða aftur hækkun upp á 150 milljónir króna," segir í tilkynningu frá Flugfélagi Íslands.
Hækkanir undanfarin ár hafa verið verulega íþyngjandi og er nú svo komið að á undanförnum 3 árum hafa gjöld sem eingöngu tengjast notkun flugvalla í innanlandskerfinu tvöfaldast.
Stefnir í 443 milljónir króna kostnað í ár
„Þannig greiddi Flugfélag Íslands árið 2009 um 207 milljónir króna í farþega- og lendingargjöld en áætla má að á árinu 2012 verði þessi kostnaður um 443 milljónir króna og eru þá meðtalin flugleiðsögugjöld og kolefnisgjald en þau gjöld eru ný gjöld sem ekki voru til árið 2009.
Auk ofangreindra gjalda bætist á flugið frá síðustu áramótum svokallað útblástursgjald undir hatti hins samevrópska ETS (Emission Trading Scheme) kerfis. Ekki er tekið tillit til þessara álagna með því að fella niður kolefnisgjaldið á móti og mun það vera einstakt að rukkað sé umhverfisgjald bæði þegar eldsneyti fer á flugvélar og síðan aftur þegar notkun er lokið.
Eftir samdrátt í farþegaflutningum innanlands í kjölfar hrunsins 2008 var á árinu 2011 farið að nást nokkurt jafnvægi í flutningum, það er hinsvegar ljóst að með þessum fyrirhuguðu gjaldahækkunum er verið að kollsteypa framtíð innanlandsflugsins. Innanlandsflugið er eina almenningssamgöngukerfið á milli landshluta sem notað er að einhverju marki auk þess að vera mun umhverfisvænna en helsti valkostur farþega sem er einkabíllinn," segir í tilkyninngu frá Flugfélagi Íslands.