Kvöddu jólin með brennum

Frá þrettándagleðinni í Grafarvogi í kvöld.
Frá þrettándagleðinni í Grafarvogi í kvöld. mbl.is/Kristinn

Álfabrennur hafa logað víða um land í tilefni þrettándans, sem er síðasti dagur jóla. Íbúar Grafarvogs fjölmenntu t.a.m. við Gufunesbæinn í kvöld þar sem þeir kvöddu jólin á árlegri þrettándagleði.

Blysför var að brennunni og þegar hún logaði tók við skemmtun og söngur, en skólahljómsveit Grafarvogs lék fyrir gesti og gangandi. Jólasveinar og púkar létu einnig sjá sig. Gleðinni lauk svo með flugeldasýningu.

Þjóðsögurnar herma að síðasti jólasveinninn fari heim á þrettándanum, en þá eru þrettán dagar liðnir frá aðfangadegi. Flestir fagna lokum jólahátíðarinnar á þrettándanum með einhverjum hætti. Það er m.a. gert með því að skjóta upp flugeldum.

Árni Björnsson þjóðháttafræðingur skrifar um þrettándann í bókinni Sögu daganna. Þar kemur fram að þrettándinn heiti upphaflega opinberunarhátíð og hafi verið tengdur ýmsum kristnum trúaratburðum, einkum skírn Krists og Austurlandavitringum.

„Hérlendis hefur hann öðru fremur verið lokadagur jóla, en eftir tímatalsbreytinguna árið 1700 munaði ekki miklu að hann bæri upp á sama dag og jólin hefðu annars byrjað. Stafar þaðan heitir „gömlu jólin“. Sá ruglingur kann að eiga þátt í að þrettándanótt á margt skylt með nýársnótt í þjóðtrú og siðum, meðal annars tala þá kýr. Algengt var að gera sér dagamun í lok jóla, og einnig hefur þrettándinn verið einskonar varadagur fyrir útiskemmtanir ef veður bregst um áramót. Einkum hafa álfabrennur á síðari árum orðið algengar á þrettándanum,“ segir í bók Árna.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert