Nasa rifið í sumar

mbl.is/Jim Smart

Skemmtistaðurinn Nasa við Austurvöll verður rifinn hinn 1. júní í sumar. Eigandi hússins tilkynnti Ingibjörgu Örlygsdóttur, sem rekið hefur staðinn, þetta í dag en hann hyggst reisa hótel á reitnum. Ingibjörg segir sorglegt að svona fari fyrir þessum dýrindissal.

„Við erum búin að vita af því að þetta væri ætlunin en endanleg dagsetning barst mér í dag. Það er 1. júní sem Nasa hættir vegna þess að þá á að rífa húsið. Ég starfa hérna þangað til 1. júní en því miður þá eftir þann tíma bæði hverfur tónleikastaðurinn Nasa og þessi dýrindissalur,“ segir Ingibjörg.

Á Nasa hafa verið haldnir ýmsir popp- og rokktónleikar í gegnum árin auk balla og annarra skemmtana. Þá hefur staðurinn verið annar helsti vettvangur Airwaves-tónlistarhátíðarinnar og verður niðurrif hans stórt högg fyrir hátíðina. Ingibjörg segir að Nasa sé ekta tónleikastaður og staðsetning hans æðisleg.

„Harpa getur ekki tekið við öllu þó að hún sé fín og flott út af fyrir sig. Þú heldur samt kannski ekki Júróvisjónball með Páli Óskari þar eða sveitaball með Sálinni hans Jóns míns,“ segir hún.

Ingibjörg þorir ekki að fullyrða að nú séu öll sund lokuð með það að Nasa fái að lifa áfram. Hugsanlega hefði hún getað fengið eigandann ofan af áformum sínum með því að bjóða honum hærri leigu en þá hefði hún verið komin í samkeppni við ríki og borg með Hörpu. Hún hefði ekki roð við þeirri samkeppni. Réttast væri að Reykjavíkurborg eignaðist staðinn og héldi starfseminni áfram.

„Ég er búin að gera fullt undanfarna mánuði og ég er nú keppnismanneskja og gefst sjaldan upp. Ég mun reyna áfram en ég á ekki þetta hús. Eigandinn verður að fá að gera það sem hann vill við sitt hús. Ég skil hann en mér finnst þetta mjög sorglegt ef svona fer,“ segir hún.

Margir eigi sér skemmtilegar minningar um salinn, bæði í tíð Nasa og fyrir þann tíma.

„Það er einhvern veginn svo týpískt á Íslandi að þá skuli endilega rífa það,“ segir Ingibjörg.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert