Nokkur af nýju framboðunum sem um er rætt vegna þingkosninganna á næsta ári ættu að sameinast og þannig tryggja að atkvæðin sem þau fá fari ekki til spillis þegar talið verður upp úr kjörkössunum. Þetta er mat Guðbjörns Guðbjörnssonar, eins af stofnendum Lýðfrelsisflokksins.
„Rökin eru þau að ég er ansi hræddur um að ef framboðin gangi ekki sameinuð fram, sérstaklega framboðin til vinstri, muni fólk þegar á hólminn er komið kjósa Vinstri græna eða Samfylkinguna af sama ótta og það hefur alltaf gert þegar það hefur kosið þessa flokka.
Það er hrætt við að atkvæði þeirra falli annars dautt niður. Það mun óttast að atkvæðin muni dreifast á of marga flokka og það því kjósa eftir hinum hefðbundna vinstri/hægri ás í stjórnmálunum,“ segir Guðbjörn.
Á líka við um hægrimenn
Guðbjörn segir stærstu flokkana ekki munu standa fyrir grundvallarbreytingum á íslensku samfélagi. Því sé brýnt að fólk hafi tiltrú á nýjum valkostum.
„Óttinn við að atkvæði fari í súginn á líka við um hægrimenn. Sú hætta er fyrir hendi að fólk kjósi Sjálfstæðisflokkinn af því að það kýs hægristefnu. Hætt er við að fólk muni segja sem svo að það lítist vel á nýtt framboð til hægri en að það komist að þeirri niðurstöðu að atkvæðið muni fara í súginn.
Ég skil þessa hræðslu fólks. En við náum aldrei fram breytingum á þjóðfélaginu með fjórflokknum sem við búum við í dag. Það er borin von. Við sáum það á síðasta landsfundi Sjálfstæðisflokksins að það er engin leið til að breyta því hverjir ráða þar ferðinni. Gamla flokksklíkan ræður þar öllu. Flokkurinn virðist ekki getað endurnýjað sig.“
Aðspurður um áhuga Lýðfrelsisflokksins á samstarfi við aðra flokka segir Guðbjörn að á þessu stigi komi aðeins til greina að fara í samstarf með Guðmundi Steingrímssyni og félögum. Sú hugmynd sé hins vegar á algjöru byrjunarstigi og hafi ekki verið rædd við Guðmund. Því sé með öllu ótímabært að fara að velta fyrir sér slíkri sameiningu.
Rætt um sjö ný framboð
Eins og mbl.is rakti í vikunni undirbýr Lilja Mósesdóttir þingmaður nýtt framboð sem kynnt verði síðar á árinu. Þá er undirbúningur Guðmundar Steingrímssonar að nýju framboði í fullum gangi sem og hjá Guðmundi Franklín Jónssyni og félögum í Hægri-grænum. Hefur síðarnefndi flokkurinn fengið listabókstafinn G.
Fjórða framboðið sem um er rætt er svonefnd Breiðfylking fólks úr Hreyfingunni, Frjálslynda flokknum og öðrum áttum. Fimmta framboðið er enn sem komið er aðeins til í hugarfylgsnum stjórnmálaskýrenda en þar er um að ræða mögulegt framboð undir forystu Ólafs Ragnars Grímssonar, forseta Íslands. Var meðal annars vikið að þeirri hugmynd í þessari grein en tilefnið var nýársávarp forsetans.
Sjötti og fjarlægasti kosturinn er svo hugsanlegt framboð Lýðræðishreyfingarinnar, stjórnmálaafls Ástþórs Magnússonar athafnamanns.
Sjöunda framboðið er svo Lýðfrelsisflokkurinn, flokkur Guðbjörns Guðbjörnssonar og félaga.
Fimm flokkar eiga nú sæti á Alþingi og gætu framboðin því alls orðið tólf í næstu kosningum eða til dæmis einu fleiri en í Hollandi. En í samtali við mbl.is setti Ólafur Þ. Harðarson prófessor fyrirhuguð framboð í samhengi við alþjóðalega þróun í flokkakerfum.