Snjó kyngdi niður á höfuðborgarsvæðinu í nótt og hafa snjóruðningsmenn verið í óða önn að hreinsa og ryðja götur. Ekki tekst þó alltaf vel til og geta slæleg vinnubrögð skapað mikla slysahættu eins og dæmin sanna.
Blaðamaður Morgunblaðsins ók frá nálægu hverfi og að Morgunblaðshúsinu við Hádegismóa um sexleytið í morgun.
Bar þá svo við að tvisvar þurfti að fara út úr bílnum og setja á blikkandi aðvörunarljós til að ryðja frá snjó og ískögglum sem skildir voru eftir á gangbrautum við umferðarljós.
Var einn snjóköggullinn á að giska 20 kíló og hefði hann án efa getað stórskemmt bifreiðar sem farið hefðu um gatnamótin við Bæjarháls og Bitruháls.