Svartfugl friðaður í ESB

Svartfuglar í Papey.
Svartfuglar í Papey. mbl.is/Ómar

Þær tegundir svartfugls, sem leyft er að veiða hér á landi, eru alfriðaðar í Evrópusambandinu. Vilji stjórnvöld óbreytt fyrirkomulag veiða á þessum tegundum, ef til aðildar Íslands að sambandinu kæmi, þyrftu íslensk stjórnvöld að semja um það í viðræðunum við ESB.

Þetta kemur fram á Evrópuvef Háskóla Íslands og Alþingis. Jafnframt kemur fram að aðild Íslands að ESB myndi engu breyta um rjúpnaveiðar á Íslandi.

Veiða má fimm tegundir af svartfugli á Íslandi: álku, langvíu, stuttnefju, teistu og lunda. Á Evrópuvefnum kemur fram að stór hluti evrópsks varpstofns þessara fimm tegunda verpi við Ísland en þær eigi einnig varpheimkynni á Grænlandi, Írlandi og Bretlandi  og í Færeyjum, Noregi og Finnlandi.

Engin þessara tegunda er nefnd í viðauka II-A við fuglatilskipun í lista um þær tegundir sem öllum aðildarríkjum ESB er heimilt að leyfa veiðar á, og ekki heldur í viðauka II-B þar sem taldar eru upp þær tegundir sem sum aðildarríki geta leyft að veiða á sínu umráðasvæði. Þessar tegundir svartfugla eru því alfriðaðar í Evrópusambandinu samkvæmt tilskipuninni.

Starfshópur á vegum umhverfisráðherra hefur nú lagt til að svartfuglstegundirnar fimm verði friðaðar hér á landi næstu fimm árin í það minnsta.

Á vefnum hlad.is kemur fram í grein Elvars Árna Lund, formanns Skotvís, að nokkrir nokkrar fleiri fuglategundir, sem leyft er að veiða hér á landi, séu ekki á undanþágulista ESB og því bannað að veiða þessa fugla í ESB-ríkjum. Þetta eru fýll, hrafn, hvítmáfur, rita, kjói, dílaskarfur, toppskarfur og súluungar.

Einnig eru  nokkrar tegundir fugla, sem má veiða í Evrópusambandinu en ekki er leyft að veiða á Íslandi. Þetta eru hrossagaukur, gargönd, grafönd, hrafnsönd, æðarfugl, gulönd, stelkur, jaðrakan, spói og skutulönd.

Evrópuvefurinn

Grein Elvars Árna

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert