Veggjöld í Vaðlaheiðargöng munu ekki standa undir kostnaði við gerð og rekstur ganganna. Líklegt er að framkvæmdin verði mun dýrari en núverandi áætlanir gera ráð fyrir og að milljarðakostnaður falli á ríkissjóð. Þetta kom fram í sjónvarpsfréttum RÚV.
Fram kom að Pálmi Kristinsson verkfræðingur hefði unnið ítarlegt óháð mat á forsendum Vaðlaheiðarganga. Pálmi hefði verið ráðgjafi Spalar í undirbúningi Hvalfjarðarganga og aðalráðgjafi Landssamtaka lífeyrissjóða í viðræðum við stjórnvöld um fjármögnun stórframkvæmda í vegagerð á árinu 2010.
Alþingi ákveður á næstunni hvort heimila eigi ríkissjóði að veita ríkisábyrgð vegna framkvæmda við Vaðlaheiðargöng eða að ríkið taki tíu milljarða króna lán sem veitt verði til verkefnisins. Forsenda fyrir stuðningi innanríkisráðuneytisins er að göngin standi undir sér með veggjöldum.