Allhvöss vestanátt syðst á landinu

Allhvöss vestanátt verður syðst á landinu og norðlæg átt 8-13 við norður- og austurströndina, annars hægari vindur. Víða skúrir eða él. Hiti 0 til 5 stig, en vægt frost norðaustan til.

Úrkomulítið í dag og lægir, en vaxandi suðaustanátt með slyddu eða rigningu Suðvestan- og vestanlands í kvöld.

Á höfuðborgarsvæðinu verður vestan 5-10 og stöku skúrir eða slydduél. Hægari og úrkomulítið í dag, en vaxandi suðaustanátt og slydda eða rigning seint í kvöld. Hiti 1 til 4 stig.

Skammt austur af landinu er 982 mb lægð sem þokast austur. Frá henni er lægðardrag vestur yfir land. Um 500 km suðvestur af Hvarfi er 972 mb lægð á norðausturleið.

Á morgun, sunnudag, er útlit fyrir suðaustanátt, 13-18 m/s, og rigningu eða slyddu í fyrstu. Hiti 1 til 7 stig. Suðvestan 8-13 og él síðdegis, en léttir til á Norðaustur- og Austurlandi. Kólnandi veður.  

Klukkan þrjú í nótt var allhvöss vestanátt syðst á landinu og norðan strekkingur við austurströndina, annars mun hægari vindur. Víða slydda eða snjókoma, en úrkomulítið á Suður- og Suðvesturlandi. Hiti frá 5 stigum í Vestmannaeyjum og á Garðskagavita, niður í 4 stiga frost í Möðrudal.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert