Jón Baldvin: Forsetinn heldur áfram

Jón Baldvin Hannibalsson.
Jón Baldvin Hannibalsson. Ragnar Axelsson

Jón Baldvin Hannibalsson, fyrrverandi utanríkisráðherra, telur að Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands, muni sækjast eftir endurkjöri í vor og þannig sitja fimm kjörtímabil sem forseti, lengst allra forseta frá lýðveldisstofnun. Hann gagnrýnir Stöð 2 fyrir að velja Ólaf Ragnar mann ársins.

Rætt er við Jón Baldvin í opnuviðtali í vikublaðinu Reykjavík.

Utanríkisráðherrann fyrrverandi víkur að nýársávarpi forsetans og segir hann hafa verið óskýran í máli um framhaldið til að kanna grundvöllinn fyrir framboði í vor. Það valdi forsetanum mestum áhyggjum ef útrásarræður hans verði lesnar upp.

Forsetinn gengur gegn utanríkisráðherranum

Þá lýsir hann yfir þeirri skoðun sinni að leggja eigi forsetaembættið niður.

„Þetta embætti er klúður í stjórnsýslu. Ólafur Ragnar rekur allt aðra utanríkispólitík en utanríkisráðherrann, Össur Skarphéðinsson. Ólafur Ragnar er hatrammur andstæðingur Evrópusambandsins og Evrópusambandsaðildar, enda er hann persónulega handgenginn valdhöfum á Indlandi eða Kína og unir sér best í þeim félagsskap.

Þess vegna talar forsetinn út þegar utanríkisráðherrann talar suður. Hvers konar stjórnsýsla er það sem býður upp á svona rugl? Ég er satt að segja kominn að þeirri niðurstöðu að það eigi að leggja þetta embætti niður. Þetta er ýmist til tómra vandræða eða einskis,“ segir Jón Baldvin meðal annars í gagnrýni sinni á Ólaf Ragnar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert