„Mér finnst forysta míns flokks [Vinstri grænna] hafa gefið allt of mikið eftir og sé með allt of bogin hné í þessum efnum,“ segir Jón Bjarnason, fyrrverandi sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, varðandi viðræður Íslands við Evrópusambandið.
Hann segir að stefna Samfylkingarinnar sé skýr hvað varðar ESB-viðræðurnar. „Ég treysti að sjálfsögðu ekki Samfylkingunni fyrir þessum málum — af og frá,“ segir Jón í ítarlegu viðtali við MBL-sjónvarp.
Hann segist ávallt vera reiðubúinn að styðja góð mál en hann muni ekki styðja frekari skref í inngöngu í ESB.
Aðspurður segist hann hafa áhyggjur af stöðu VG. „Við sjáum í skoðanakönnunum að þá hefur fylgi Vinstri grænna næstum því helmingast og það er áhyggjuefni. Og það er slæmt líka að missa það fólk burt sem hefur staðið hvað harðast á hugsunum og stefnu flokksins,“ segir Jón.
Þá segir hann að tilgangur hrókeringanna í ríkisstjórninni um áramótin hafi verið að losna við sig úr ráðherraembætti.
„Við erum að koma núna að ákveðnum vendipunkti í þessum efnum. Það á að fara ganga til samninga. Hingað til hefur þetta fyrst og fremst verið að safna upplýsingum og meta og fara yfir stöðu hver annars. Nú eru samningar framundan. Við vitum alveg að Samfylkingin á sér þann æðsta draum að komast sem hraðast inn í Evrópusambandið. Við vitum að sumum í okkar flokki, Vinstrihreyfingunni grænu framboði, er það líka kappsmál. Og aðrir eru með bogna fætur. En þetta er samt eitt af grundvallarmálum okkar og míns flokks, og þjóðarinnar allrar, að þessi vegferð inn í Evrópusambandið verði stöðvuð. Þangað eigum við ekkert erindi. Við eigum gott samstarf, sem fullvalda og sjálfstæð þjóð, við aðrar þjóðir. En ekki að renna inn í slíkt stórt ríkjasamband,“ segir Jón í viðtalinu.