Jón Gunnarsson alþingismaður fer hörðum orðum um Ögmund Jónasson innanríkisráðherra í aðsendri grein í Morgunblaðinu í dag. Hann segir m.a. að ummæli Ögmundar og annarra flokksforingja VG séu hræsni og sýni ekkert annað en fremur ógeðfelldar hliðar pólitísks samstarfs VG og Samfylkingarinnar.
Í grein Jóns segir m.a.: „Blekkingarnar verða ekki sannleikur þótt menn gefi þeim hátíðleg eða nýstárleg nöfn og Ögmundur snýr öllu á haus þegar hann reynir að telja fólki trú um að allur þessi vandræðagangur sé dæmi um bætt vinnubrögð. Honum trúa fáir sem betur fer og sýnir það sig best í skoðanakönnunum þar sem niðurstaðan er sú að bæði VG og ríkisstjórnin eru rúin trausti. Hann líkir Sjálfstæðisflokknum við úlf í sauðargæru og ráðleggur fólki að leggja við hlustir eftir því sem við sjálfstæðismenn segjum. Ég tek undir þetta með Ögmundi, fólk á að leggja við hlustir, það hefur aldrei verið mikilvægara en nú. Margt af því sem hann segir um stefnu Sjálfstæðisflokksins er að sjálfsögðu ósatt, en annað hárrétt.“