Ennþá flughált víða

Mynd úr safni.
Mynd úr safni. Rax / Ragnar Axelsson

Töluverð hálka er enn víða um land. Að sögn lögreglu á Selfossi er færðin í hliðargötum eins slæm og hún verður og ekki keyrandi þar vegna fljúgandi hálku. Á Ísafirði er einnig mikill ís á götum og á þjóðveginum í kringum Akureyri. Þá er fljúgandi hált á Holtavörðuheiði, Fjarðarheiði og Fagradal.

Að sögn lögreglunnar á Selfossi er færðin á þjóðveginum í lagi en ástandið í hliðargötum bæjarins með versta móti. Það hefur rignt og veður verið hlýtt á svæðinu í dag og sitja því klakabúnt eftir í götunum og er varla keyrandi í þeim að sögn lögreglu. Engin óhöpp hafa þó orðið af þeim sökum í dag. Þá er mikil hálka á Biskupstungnabraut.

Á Akureyri er hált bæði innanbæjar og á þjóðveginum í kring en umferð hefur þó gengið vel og engin óhöpp orðið. Lögreglan á Blönduósi hefur svipaða sögu að segja en fljúgandi hálka er á Holtavörðuheiði. Færðin á þjóðveginum í kringum bæinn er þó ágæt að sögn.

Að sögn lögreglu í Borgarnesi eru flestir vegir orðnir auðir og lítil hálka á svæðinu og svipað er upp á teningnum á Suðurnesjum. Færð á Reykjanesbraut er góð að sögn lögreglu og er það helst í botnlöngum í bæjum þar sem enn er mjög hált.

Á Ísafirði er enn allt út í ís á götum og mjög blautt. Engin óhöpp hafa þó orðið af þeim sökum. Að sögn lögreglu á Egilsstöðum hefur verið mjög hvasst og hált á Fjarðarheiði og Fagradal en vind hefur þó verið að lægja.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert