Bæjarstjórn Álftaness hefur náð góðum árangri í rekstri bæjarfélagsins það sem af er þessu kjörtímabili og lækkað rekstrarútgjöld um tæplega þriðjung.
„Þetta er ekki gert án töluverðrar fyrirhafnar og mikillar vinnu,“ segir Pálmi Þór Másson, bæjarstjóri á Álftanesi, í umfjöllun um málefni sveitarfélagsins í Morgunblaðinu í dag. Það hefur því verið að rétta úr kútnum eftir að hafa lent í töluverðum ógöngum þegar bankahrunið varð haustið 2008.
Þrátt fyrir árangurinn hefur innanríkisráðuneytið framlengt setu fjárhaldsstjórnar, sem komið var á fót í byrjun árs 2010, út marsmánuð á þessu ári en þetta er sjöunda framlengingin. Pálmi vonast til að Álftanes taki að fullu yfir eigin fjármál að lokinni þessari framlengingu. „Það er einungis eitt mál sem stendur í vegi fyrir því að stjórnin ljúki störfum og við bindum vonir við að því ljúki fljótlega.“