Jón Gnarr, borgarstjóri Reykjavíkur, segist geta fullvissað borgarbúa um að borgaryfirvöld séu að gera sitt besta til að greiða úr ástandinu og ekki sé verið að spara neitt í þeim efnum.
„Ástandið á gatnakerfi Reykjavíkur hefur verið mjög erfitt að undanförnu,“ segir í orðsendingu frá borgarstjóra. „Óvenju mikill snjór hefur fallið á höfuðborgarsvæðinu, sá mesti í marga áratugi, og framkvæmdasvið borgarinnar hefur verið að glíma við afleiðingarnar af því.
Gatnakerfið í Reykjavík er 950 kílómetrar að lengd og beitt verður öllum hugsanlegum ráðum til að hálkuverja og ryðja götur í borginni. Ég get fullvissað borgarbúa um að við erum að gera okkar besta til að greiða úr ástandinu og það er ekki verið að spara neitt í þeim efnum.
Við þessar aðstæður vil ég biðja fólk að sýna ástandinu skilning, fara varlega og hætta sér ekki út nema vel búið. Þá vil ég biðja bíleigendur að hliðra til fyrir snjóruðningstækjum og sýna tillitssemi í umferðinni,“ segir í orðsendingu borgarstjóra.
Unnið hefur verið um alla borg við snjóhreinsun og hálkuvarnir gatna- og gönguleiða í samræmi við forgangsröðun í snjóhreinsun. Samkvæmt upplýsingum frá framkvæmda- og eignasviði Reykjavíkurborgar verður áfram unnið með vegheflum til að ná niður hryggjum í húsagötum en þau tæki séu það eina sem vinnur á hörðum klakanum.
Í dag er unnið í götum í Bústaðahverfi, Heimum, Vogum, Sundum, Seláshverfi, Breiðholti, Vesturbænum, Smáíbúðahverfi og Háaleiti. Níu heflar eru notaðir til verksins og er stefnt að því að klára húsagötur í þessum hverfum.
Unnið er við snjóhreinsun og söndun á göngustígum og aðkomuleiðum að biðstöðvum strætó. Einnig er hreinsað og sandað við stofnanir eftir þörfum.
Á hverfastöðvum Reykjavíkurborgar geta borgarar náð sér í salt og sand til að bera á einkalóðir og innkeyrslur.