Útgerðarfyrirtækinu Skinney-Þinganesi var í Héraðsdómi Austurlands nýverið gert að greiða matsveini 2,3 milljónir króna í veikindalaun auk vaxta.
Ekki var deilt um að matsveinninn hefði verið óvinnufær heldur sneri ágreiningurinn að því hvort hann teldist hafa verið haldinn sjúkdómi í skilningi sjómannalaga og kjarasamnings. Taldi útgerðin að óvinnufærni mannsins væri vegna fíknisjúkdóms sem teldist ekki til sjúkdóms í skilningi vinnuréttar og sjómannalaga.
Í forsendum dómsins er vísað til þess að heilsugæslulæknir hafi gefið út vottorð og borið að maðurinn hafi borið „skýr einkenni kvíða og þunglyndis“. Hann hafi borið að þessir geðrænu sjúkdómar væru, auk fíknisjúkdóms, grunnsjúkdómar mannsins til margra ára.