Fanney stendur í fæturna

Fanney Þorbjörg á sjúkrabeði í Ósló.
Fanney Þorbjörg á sjúkrabeði í Ósló.

Fanney Þorbjörg Guðmundsdóttir stóð í fæturna í dag í fyrsta skipti eftir alvarlegt skíðaslys sem hún lenti í á aðfangadag í Noregi. Hún segir það hafa verið góða tilfinningu að standa sjálf upp og sér gangi betur með hverjum deginum sem líður.

„Ég sat í hjólastólnum og svo stóð ég nú bara sjálf upp nánast en sjúkraþjálfarinn minn stóð fyrir framan mig og hjálpaði mér að standa upp. Það gekk rosalega vel. Ég stóð tvisvar upp og í seinna skiptið fann ég ennþá meira fyrir því að ég stóð sjálf upp með lærunum,“ segir Fanney.

Fanney dvelur nú á endurhæfingarsjúkrahúsinu Sunnaas utan við Osló. Hún segir að tilfinningin að standa upp hafi verið mjög góð en óvænt.

„Ég bjóst ekki við því í morgun þegar ég fór í sjúkraþjálfunina að ég væri að fara standa upp í fyrsta sinn núna eftir slysið. Það var rosagaman. Það er búið að vera erfitt þegar ég reyni að setjast upp því þá svimar mig svolítið mikið út af blóðþrýstingnum. Það gekk alveg ótrúlega vel að standa í dag sem tekur á blóðþrýstinginn. Það gengur bara betur og betur með hverjum deginum sem líður,“ segir hún.

Hún er þó enn með takmarkaðan mátt í líkamanum en segist aðeins vera farin að borða sjálf með vinstri hendinni.

„Hreyfingarnar eru náttúrlega ekki mjög fínlegar, þær eru frekar klaufalegar. En þetta gengur ótrúlega hratt, allavega frá föstudeginum þar til í morgun er ótrúlega mikið búið að gerast,“ segir Fanney.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert