Haförn sást við Hvalsnes rétt undir hádegi í gær. Hulda Halldórsdóttir skrifstofumaður og Boga Kristín Kristinsdóttir, ferðafræðingur hjá CCP, urðu varar við örninn í hádeginu í gær þegar þær tóku þátt í hinum árlega fuglatalningadegi Náttúrufræðistofnunar Íslands.
„Mér fannst þetta alveg stórskemmtilegt að sjá hann þarna einmitt á svona skemmtilegum degi við fuglatalningu,“ segir Boga Kristín aðspurð hvernig það hafi verið að rekast á haförn á þessum slóðum. Boga Kristín bætir við að þetta sé í fyrsta skipti sem haförn sést á þessum stað. „Þetta er í fyrsta skiptið sem ég sé haförn á þessum stað og ég bjóst náttúrlega alls ekki við því,“ segir Boga Kristín.
Að sögn Huldu og Bogu réðst hópur máva að haferninum í gær. „Það var um sjö til átta fugla hópur sem flýtti sér frá erninum en mávarnir gerðu at í honum og reyndu að hrekja hann í burtu,“ segir Hulda í samtali við blaðamann mbl.is.
Boga Kristín telur að örninn hafi verið áttavilltur og að hann hafi villst af leið sökum slæms veðurs. „Trúlega hefur hann hrakist undan veðrinu og mögulega verið ungur fugl í ætisleit,“ segir Boga Kristín.