Fréttaskýring: Kröfur ESB kosta Spöl 250 milljónir kr.

Í Hvalfjarðargöngum.
Í Hvalfjarðargöngum.

Auknar öryggiskröfur Evrópusambandsins vegna jarðganga, líkt og Hvalfjarðarganga sem Spölur rekur, hafa orðið til þess að fyrirtækið hefur undanfarið eitt og hálft ár ráðist í framkvæmdir upp á nærri 250 milljónir króna.

Þrátt fyrir að innleiðing á tilskipun Evrópusambandsins hafi kallað á töluverðar framkvæmdir var öryggi ganganna ábótavant fyrir. Hvalfjarðargöngin fengu falleinkunn hjá Samtökum þýskra bíleigenda, ADAC, sem könnuðu öryggismál í 26 jarðgöngum í Evrópu árið 2010. Samtökin segja að fern göng hafi fengið rauða spjaldið en Hvalfjarðargöngin komu hins vegar verst út. Þeir þættir sem komu verst út í könnun ADAC í Hvalfjarðargöngunum var viðbúnaður ef neyðartilvik kemur upp, viðbrögð við eldi, flótta- og útgönguleiðir og loftræsting í göngunum. Þá var bent á að ekkert sjálfvirkt viðvörunarkerfi væri í göngunum.

„Framkvæmdaáætlun Spalar var samþykkt árið 2009 til þess að uppfylla öryggiskröfur ESB-tilskipunar og þess vegna er ekki hægt að segja að þær framkvæmdir sem við fórum í hafi verið vegna könnunar ADAC. Öryggi í göngunum í dag er hins vegar töluvert betra en það var þegar könnunin var gerð. Við höfum t.d. sett upp sívöktunarkerfi og núna vakta um 80 myndavélar göngin bæði dag og nótt,“ segir Marínó Tryggvason, afgreiðslustjóri og öryggisfulltrúi Spalar.

Umtalsverðar framfarir í öryggismálum á 14 mánuðum

„Við ætlum ekki bara að uppfylla kröfur ESB heldur gera gott betur og frá því við hófum framkvæmdir í nóvember árið 2010 er búið að bæta lýsingu í göngunum, ný öryggisljós voru sett upp í lofti ganganna með 50 metra millibili, ný flóttaljós hafa verið sett upp, nýir skápar með slökkvitækjum og neyðarsímar hafa verið settir upp með 125 metra millibili auk annarra öryggisráðstafana,“ segir Marínó.

Heildarkostnaður við framkvæmdirnar nemur um 250 milljónum króna en þar af fóru 84 milljónir í sívöktunarkerfi.

„Vegfarendur ættu að merkja það á ferðum sínum um Hvalfjarðargöngin að núna er bjartara en áður á köflunum inn af gangamunnum beggja vegna og sömuleiðis sjá þeir á gangaveggjum svokölluð flóttaljós sem sem sett hafa verið upp og vísa á hvorn munna ef rafmagn fer af göngunum. Öryggi Hvalfjarðaganganna mun því uppfylla ýtrustu kröfur tilskipunar ESB en við höfum frest til árisns 2014 til að uppfylla þær kröfur.“

Athugasemdir ADAC á verkáætlun

Öll þau 20 atriði sem samtök þýskra bíleigenda gerðu athugasemd við eru á verkáætlun Spalar. Gylfi Þórðarson, framkvæmdastjóri Spalar segir öryggi í Hvalfjarðargöngunum vera komið í gott horf. „Við þurfum að líta til þess að umferð um göngin er minni en víða í Evrópu og hefur verið að minnka töluvert frá hruni. Framkvæmdir sem áætlaðar eru næstu tvö ár auk þess sem þegar er búið að gera ættu að gera Hvalfjarðargöngin mjög örugg en enginn kafli þjóðvegarins er undir öðru eins eftirliti og Hvalfjarðargöngin eru í dag,“ segir Gylfi.

Færri bílar um göngin

„Umferð um göngin hefur minnkað um 8 prósent frá hruni og við áætlum að það verði á bilinu 2,5 prósent minnkun á þessu ári. Botninum er ekki náð,“ segir Gylfi Þórðarson, framkvæmdarstjóri Spalar. Að hans sögn má rekja hluta af hækkun veggjalds til öryggisframkvæmda. „Við tókum ekki lán fyrir þessum framkvæmdum og þó þær skýri að hluta hækkunina í sumar þá eru það aðrir þættir sem vega þyngra. En engar hækkanir eru í kortunum hjá okkur á næstunni þrátt fyrir að öryggi ganganna verði bætt enn frekar næstu tvö árin.“ Hærra eldsneytisgjald vegna aukinnar skattheimtu á eldsneyti hefur m.a. dregið úr umferð um göngin og það hefur leitt til hærra verðs.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert