Stjórn Sambands ungra sjálfstæðismanna segir að tölur um landflótta sé mikill áfellisdómur yfir ríkisstjórninni. Sérstaklega sé slæmt að ungt fólk skuli flytja frá landinu eða ekki koma heim úr námi.
Í ályktun frá SUS er bent á að landflótti sé nú í sögulegu hámarki samkvæmt tölum frá Hagstofunni. „Meginástæða landflóttans er ekki hrunið sem slíkt heldur sú að fólk hefur ekki trú á að núverandi ríkisstjórn muni bæta hag og afkomu fólks hérlendis. Það hlýtur að vera meginverkefni ríkisstjórnarinnar að efla hæfni Íslands í samkeppni um fólk með því að skapa hér tækifæri fyrir einstaklinga til að auka lífsgæði sín. Sérstaklega er það áhyggjuefni að ungt fólk skuli nú ýmist flytja úr landi eða ekki snúa heim úr námi þar sem það sér ekki fram á bjarta framtíð hér á landi.
Viðbrögð Jóhönnu Sigurðardóttir, forsætisráðherra, við nýbirtum tölum um landsflótta eru henni til skammar og til marks um þreytu og valdhroka. Í stað þess að harma landflóttann og heita bót og betrun skellir hún skollaeyrunum við, lætur sem tölurnar séu ekki réttar og gerir lítið úr því fólki sem flutt hefur og sér hag sínum betur borgið annars staðar. Þessi viðbrögð eru enn eitt merki þess að brýnt er að boða til kosninga strax.“