„Það eina sem liggur fyrir er það að gamla húsið sem snýr fram að Austurvelli, gamli kvennaskólinn sem er ásýnd Nasa í hugum nánast allra, er friðað og verður aldrei rifið.
Þetta segir Pétur Þór Sigurðsson, hæstaréttarlögmaður og eigandi hússins sem hýsir skemmtistaðinn Nasa, aðspurður hvort til standi að rífa húsið sem stendur við Thorvaldsensstræti 2. Hann segir húsið gullfallegt og aldrei hafi staðið til að rífa það. „Nasa verður aldrei rifinn.“
Morgunblaðið greindi frá því síðastliðinn laugardag að Pétur hefði tilkynnt Ingibjörgu Örlygsdóttur, sem rekið hefur skemmtistaðinn Nasa, að til stæði að rífa húsið 1. júní næstkomandi og byggja hótel á reitnum. Að sögn Péturs hefur Nasa átt í rekstrarörðugleikum og verið í vanskilum með leigu á húsnæðinu.