Sex ökumenn voru teknir fyrir ölvunarakstur á höfuðborgarsvæðinu um helgina. Þrír þeirra voru stöðvaðir í Reykjavík, tveir í Hafnarfirði og einn í Garðabæ. Tveir voru teknir á föstudagskvöld og tveir sömuleiðis á bæði laugardag og sunnudag.
Þetta voru fimm karlar á aldrinum 25-62 ára og ein kona, 17 ára. Þrír þessara ökumanna höfðu þegar verið sviptir ökuleyfi og einn hefur aldrei öðlast ökuréttindi.
Í tveimur tilvikum þurfti að veita ökumönnum eftirför áður en þeir létu sér segjast, samkvæmt upplýsingum frá lögreglu.
Um helgina voru þrír ökumenn teknir á höfuðborgarsvæðinu fyrir að aka undir áhrifum fíkniefna. Tveir þeirra voru stöðvaðir í Reykjavík og einn í Kópavogi. Einn var tekinn á laugardag og tveir á sunnudag. Þetta voru allt karlar en þeir eru á aldrinum 18-41 árs. Einn þeirra hefur aldrei öðlast ökuréttindi.