Opinberum störfum fækkar á landsbyggðinni

Gunnar Bragi Sveinsson
Gunnar Bragi Sveinsson Ómar Óskarsson

Margt bendir til að niðurskurður í ríkisfjármálum í kjölfar bankahrunsins hafi komið verr niður á landsbyggðinni en höfuðborgarsvæðinu. Þetta segir Gunnar Bragi Sveinsson, þingmaður Framsóknarflokks, um tölur iðnaðarráðuneytisins sem sýna að opinberum störfum fækkar á landsbyggðinni en fjölgar í borginni.

„Þetta er í stíl við það sem maður hefði haldið. Það er fækkun úti á landi en fjölgun á höfuðborgarsvæðinu. Mér finnst þetta algerlega óþolandi. Það hallar að mínu viti á landsbyggðina og hefur gert frá 2007,“ segir Gunnar Bragi.

Í svari iðnaðarráðherra við fyrirspurn hans á Alþingi um opinber störf á landsbyggðinni kemur fram að opinberum störfum hefur fækkað þar um 90,5 á milli áranna 2007 og 2011 á meðan þeim hefur fjölgað um 127,9 á höfuðborgarsvæðinu.

Athygli vekur að á Suðurnesjum hefur opinberum störfum fækkað um 223,7 á tímabilinu og segir Gunnar Bragi að þar ráði líklega mestu fækkun í heilbrigðisþjónustunni á svæðinu.

„Það vekur mikla athygli hrunið á Suðurnesjum í opinberum störfum og stjórnvöld hafa ekki náð að bregðast við því með neinum hætti,“ segir hann.

Það sem vinni á móti fækkun starfa á landsbyggðinni sé fyrst og fremst flutningur Matvælastofnunar á Selfoss og verkefni Vinnumálastofnunar og Fæðingarorlofssjóðs á Skagaströnd. Þannig fjölgaði opinberum störfum á Suðurlandi um 70,8 og á Norðurlandi vestra um 7,9.

Á Vesturlandi fjölgar opinberum störfum um 83,5 á tímabilinu og um 20,7 á Austurlandi. Á Vestfjörðum hefur störfunum hins vegar fækkað um 20,7, á Norðurlandi eystra um 29.

„Mér sýnist margt benda til þess að niðurskurður í ríkisfjármálum eftir hrunið hafi komið verr við landsbyggðina en höfuðborgarsvæðið og að honum hafi verið beint meira í opinber störf úti á landi. Það er hægt að draga þá ályktun,“ segir Gunnar Bragi.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert