Skammbyssum smyglað hingað

Lögreglan hefur í auknum mæli lagt hald á vopn hjá …
Lögreglan hefur í auknum mæli lagt hald á vopn hjá félögum í íslenskum glæpahópum.

Embætti ríkislögreglustjóra segir að lögregla búi yfir upplýsingum þess efnis að skammbyssum sé smyglað inn í landið í einhverjum mæli. Fyrir liggi að þekktir hópar afbrotamanna hafi á síðustu misserum lagt áherslu á að komast yfir vopn.

Þetta kemur fram í nýju hættumati embættisríkislögreglustjóra á skipulagðri glæpastarfsemi. Segir embættið, að á Íslandi starfi glæpahópar, sem teljist íslenskir í þeim skilningi að þeir eigi uppruna sinn hér á landi og félagar í þeim séu yfirleitt íslenskir ríkisborgarar. Sumir þessara hópa hafi lengi verið starfandi og séu umsvifamiklir á sviði innflutnings og framleiðslu fíkniefna, peningaþvættis, handrukkana og annars konar fjárkúgunar.

Þá sé ástæða sé til að ætla að þessir hópar komi í einhverjum tilvikum að vændissölu.

Sömu innlendu aðilar hafi um árabil verið stórtækir á þessum sviðum skipulagðrar glæpastarfsemi og komi einkum nærri skipulagningu og fjármögnun. Neðar í keðjunni séu þekktir afbrotamenn oftar en ekki á ferð.

Hafa hlotið herþjálfun

Greiningardeild ríkislögreglustjóra segir, að skotárásin í Bryggjuhverfi í Reykjavík  nóvember sl. sé til marks um þá hættu að til átaka komi með einstaklingum og hópum
sem tengi skipulagðri brotastarfsemi á Íslandi. Nýir hópar láti nú til sín taka í samkeppni við erfiðari aðstæður á markaði.

Jafnframt sé ástæða til að ætla að hömluleysi fari vaxandi innan þeirra hópa sem einkum láti til sín taka. Þá þróun megi vafalítið í einhverjum tilvikum rekja til neyslu viðkomandi á sérlega hættulegum örvandi efnum sem vitað sé að framleidd eru hér á landi.

Þá segir greiningardeildin, að í erlendum glæpahópum hér á landi séu iðulega menn sem hafi hlotið herþjálfun erlendis og sýnt af sér vilja til grófrar valdbeitingar, hömluleysi og hrottaskap.

Deildin búi yfir upplýsingum þess efnis að innlendir aðilar í íslenskum undirheimum óttist margir hverjir mjög þessa erlendu afbrotamenn. Vera kunni að aukna vopnaeign og mögulegan vopnaburð megi rekja til þessa ótta.

Þá liggi fyrir vísbendingar þess efnis að í vöxt færist að félagar í erlendum sem innlendum glæpahópum gangi um vopnaðir. Talsmenn lögreglu hafi á undanliðnum árum ítrekað vakið athygli á að lögreglumönnum sé aukin hætta búin þegar þeir sinna skyldustörfum sínum. Þá hafi þekktir íslenskir brotamenn lýst yfir því að þeir séu tilbúnir til að beita lögreglu ofbeldi telji þeir það nauðsynlegt og til átaka hafi komið með lögreglu og félögum í erlendum glæpahópum sem starfa hér á landi.

Samkvæmt heimildum greiningardeildar ríkislögreglustjóra líta menn í íslenskum undirheimum á vopn fyrst og fremst sem tæki til sjálfsvarnar gagnvart öðrum  afbrotamönnum og hópum. Sú afstaða breyti vitaskuld engu um þá ógn gagnvart lögreglumönnum og almenningi sem þeirri vopnaeign fylgi. Komi til átaka milli glæpahópa eða einstaklinga sem þeim tengjast sé ljóst að almenningi kunni að vera hætta búin. Átök gætu brotist út á opinberum stöðum auk þess sem sú hætta sé ávallt fyrir hendi, að ofbeldismenn fari mannavillt eða almenningur verði með einhverjum hætti á milli í átökum hópa.

Hættumat embættis ríkislögreglustjóra

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert