Tugir starfsmanna Orkuveitu Reykjavíkur unnu að því að halda veitukerfum gangandi við ítrekaðar spennusveiflur frá flutningskerfi rafmagns. Enn er ekki komið fullt jafnvægi á rekstur veitukerfanna, en ef ekki verða frekari spennutruflanir er vonast til að jafnvægi náist í nótt eða með morgninum.
Íbúar á höfuðborgarsvæðinu hafa orðið varir við flökt á ljósum og jafnvel útslátt raftækja og sveiflurnar í rafmagninu hafa valdið margvíslegum truflunum í veiturekstri Orkuveitu Reykjavíkur á Suðvesturhorninu. Verið er að koma öllum kerfum í gang að nýju og vonast er til að rekstur veitukerfanna verði komin í jafnvægi og þjónustan í lag þegar líður á nóttina. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Orkuveitu Reykjavíkur.
Laust fyrir klukkan hálfsjö í kvöld varð fyrsta spennuhöggið og kom það vegna bilunar í tengivirki Landsnets við Brennimel í Hvalfirði. Það olli rafmagnsleysi á Akranesi sem varði í tæpa hálfa klukkustund. Þá komst rafmagn aftur á eftir varaleið frá Andakílsárvirkjun.
Aftur kom högg á raforkukerfið hálftíma síðar. Þá sló Hellisheiðarvirkjun út. Undirbúningur að endurræsingu hófst þegar í stað og var farið að keyra upp fyrstu vélarnar upp úr klukkan tíu.
Þriðja stóra höggið af sömu orsökum kom laust fyrir hálftíu í kvöld. Það olli útslætti hitaveitudælna á höfuðborgarsvæðinu. Þær voru ræstar fljótlega að nýju en íbúar urðu þessa varir með því að þrýstingur á heita vatninu lækkaði sums staðar tímabundið.
Aðrar rafveitur en Orkuveitan urðu einnig fyrir talsverðum truflunum. Sumar þeirra höfðu áhrif á veiturekstur Orkuveitunnar á Suður- og Vesturlandi. Rafmagnsleysi á Vesturlandi skerti þjónustu hitaveitu Orkuveitunnar frá Deildartunguhver. Hún þjónar meðal annars Akranesi og Borgarnesi. Bilun varð í hitaveitunni i Skorradal og er unnið að viðgerð. Rafmagnstruflanir á Suðurlandi höfðu áhrif á rekstur hitaveitunnar í Hveragerði og í Þorlákshöfn og rekstur smærri veitna á Suðurlandi raskaðist meðan starfsmenn Orkuveitunnar fóru um í þungri færð og slæmu veðri til að gangsetja dælur að nýju.