Glæður í spennistöð

www.mats.is

Eldur kviknaði í spennistöð Landsnets í Hvalfirði fyrr í kvöld með þeim afleiðingum að rafmagn fór af álveri Norðuráls og Hellisheiðarvirkjun auk þess sem rafmagn fór víða af eða flökti á Suðvesturhorninu og Vesturlandi. Eldurinn hefur verið slökktur, en viðgerð stendur enn yfir.

Eldurinn kom upp í spennistöðinni við Brennimel í Hvalfirði um klukkan sjö í kvöld. Enn eru einhverjar glæður í stöðinni en slökkvilið frá Akranesi auk starfsmanna Landsnets og Rariks er á staðnum. Erfiðlega gekk að komast að eldinum vegna færðar og veðurs og þurfti að ryðja leið þangað.

Talið er að þéttir hafi farið í spennistöðinni sem leiddi til þess að eldurinn kviknaði. Hjá starfsmanni Rarik fengust þær upplýsingar að Hvalfjörður lýstist upp við eldsvoðann. Hann segir að vonast sé til að rafmagn komist aftur á von bráðar, vonandi á næstu klukkustund.

Við eldinn kom mikið högg á kerfið sem hafði keðjuverkandi áhrif. Meðal annars olli það því að heitavatnsdælum á höfuðborgarsvæðinu sló út. Verið er að ræsa þær að nýju. Hugsanlegt er að þrýstingur lækki um stund þar sem hús standa hæst.

Enn er ekkert rafmagn komið á álverið Norðuráls á Grundartanga né járnblendiverksmiðjuna. Búast má við töluverðu tjóni hjá Norðuráli sökum þessa, komist rafmagn ekki á allra næstu klukkustundir. Þá er verið að keyra Hellisheiðarvirkjun aftur upp. Þá var Hvalfjarðargöngum lokað en rafmagnslaust er í þeim.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert