„Má alltaf reyna að gera betur“

Talsverð ófærð hefur verið á höfuðborgarsvæðinu eins og víðar.
Talsverð ófærð hefur verið á höfuðborgarsvæðinu eins og víðar. Morgunblaðið/Árni Sæberg

Snjómokstur og hálkuvarnir í Reykjavík voru til umræðu á fundi umhverfis- og samgönguráðs borgarinnar í dag. Í bókun meirihlutans segir m.a. að ráðlegt sé að vinna löngu tímabæra neyðaráætlun sem hægt væri að grípa til þegar ljóst er að hefðbundin ruðningsáætlun nær ekki að tryggja færð í borginni.

Borgaryfirvöld hafa sætt harðri gagnrýni vegna aðgerðaleysis í hálkuvörnum og snjómokstri undanfarna daga, og ekki síst um liðna helgi. Sjálfstæðismenn fóru af þessum sökum fram á sérstaka umræðu um málið á fundi umhverfis- og samgönguráðs í dag. Gísli Marteinn Baldursson, fulltrúi Sjálfstæðisflokks í ráðinu, segir fundinn hafa verið gagnlegan. Starfsmaður frá framkvæmda- og eignasviði hafi setið fyrir svörum og margt athyglisvert komið fram í máli hans.

Eftir umræður létu sjálfstæðismenn bóka að þeir teldu ástandið á götum og göngustígum borgarinnar undanfarna daga og vikur óviðunandi. Allir hefðu skilning á því að nokkurn tíma tæki að koma gatnakerfinu í lag eftir mikla snjókomu eða vont veður „en það er bæði sjálfsögð og eðlileg krafa af hálfu borgarbúa að geta komist leiðar sinnar í borginni eftir að veðrinu slotar.“

Gísli segir borgina hafa verið illa undirbúna og neyðaráætlun þurfi í tilvikum sem þessum. Hann viti dæmi þess að fjölmargar götur hafi ekki verið ruddar einu sinni frá 11. desember sl. „Það kom einnig fram á fundinum að ekki hafi verið komist í allar húsagötur. Og sú staðreynd að það hafi verið hálfófært fyrir fólk með barnavagna, eða fólk sem á erfitt með gang, í fleiri vikur bendir til þess að eitthvað sé að kerfinu sem sett er upp þegar svona háttar til.“ Hann bætir við að um leið og borgin hvetji fólk til að taka frekar Strætó til að komast leiðar sinnar verði að vera fært að næstu stoppistöð.

Á þetta er einnig bent í bókun sjálfstæðismanna og að þótt starfsmenn borgarinnar leggi sig alla fram þessa dagana, og borgarbúar séu allir af vilja gerðir að sýna erfiðu ástandi skilning, geri þeir einfaldlega kröfu um betri þjónustu en þá sem þeir hafa fengið undanfarnar vikur. Þá segir: „Borgin þarf að vera tilbúin með neyðaráætlun í tilvikum sem þessum, horfa þarf til þess hvort hægt sé að moka snjó burt úr götum, hita gangstéttir í húsagötum með affallsvatni eða hvaða aðrar lausnir sem duga kunna. Jafnvel þótt snjókoma hafi verið óvenjumikil í desember og færðin óvenjuerfið viðureignar, er það óábyrgt að vera ekki með betri viðbragðsáætlun en raun ber vitni.“

Vinna þarf neyðaráætlun

Fulltrúar Besta Flokksins og Samfylkingar létu einnig bóka á fundinum vegna málsins. Í bókun þeirra er starfsmönnum Reykjavíkur þakkað fyrir sitt mikla starf við að ryðja götur og gangstíga við mjög erfiðar aðstæður undanfarna daga. „Þrátt fyrir að borgin hafi gert allt sem hún gat í samstarfi við verktaka og með góðri hjálp borgarbúa þá hefur færðin víða í borginni ekki verið nógu góð. Erfitt er að ímynda sér að hægt sé að ryðja alla götur og göngustíga í viðlíka ofankomu en það má alltaf reyna að gera betur.“

Þá segir að ráðlegt sé að vinna löngu tímabæra neyðaráætlun sem hægt væri að grípa til þegar ljóst er að hefðbundin ruðningsáætlun nær ekki að tryggja færð í borginni. Í slíkri áætlun sé nauðsynlegt að forgangsröðun sé vel skilgreind og einnig að skýr skilaboð verði send til borgarbúa.

Ekki betra að vera á nöglum

Meðal þess sem hefur verið gagnrýnt er herferð Reykjavíkurborgar gegn nagladekkjum í borginni. Gísli Marteinn segir umræðuna um slælega þjónustu við mokstur og söndun ekki breyta neinu þegar kemur að umræðu um nagladekk. „Ég tel að þessi færð núna sé engin sönnun fyrir því að betra sé að vera á bílum með nagladekk. Menn þurfa auðvitað að vera á góðum vetrardekkjum, en það hefur ekkert í þessari færð fært mér sönnur á það, að betra sé að vera á nöglum en góðum vetrardekkjum. Sérfræðingar segja mér að suma dagana hafi meira að segja verið hættulegra að vera á nöglum.“


Gísli áréttar einnig að Reykjavíkurborg hafi ávallt tekið fram að menn skuli vera á góðum vetrardekkjum. „Þegar svo snjórinn fer munu vetrardekkin ekki slíta malbikinu óskaplega á meðan naglarnir myndu gera það.“

Margir hafa lent í vandræðum í ófærðinni
Margir hafa lent í vandræðum í ófærðinni Morgunblaðið/Kristinn
Auglýsing Reykjavíkurborgar vegna nagladekkja.
Auglýsing Reykjavíkurborgar vegna nagladekkja. mbl.is
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert