Borgaryfirvöld í Reykjavík fá harða gagnrýni úr ýmsum áttum vegna aðgerðaleysis í snjómokstri og hálkuvörnum undanfarið. Tíð hálkuslys undanfarið hafa valdið miklu álagi á slysa- og bráðadeild Landspítalans. Hátt í 70 manns leituðu þar aðstoðar vegna hálkuslysa um helgina.
„Það hefur verið illa haldið á þessu og öryggi borgarbúa hefur ekki verið í forgangi. Það er óverjandi,“ sagði Hanna Birna Kristjánsdóttir, oddviti borgarstjórnarflokks Sjálfstæðisflokksins, í samtali við Morgunblaðið.
Runólfur Ólafsson, framkvæmdastjóri FÍB, sagðist taka undir gagnrýni Einars Magnúsar Magnússonar, upplýsingafulltrúa Umferðarstofu, á aðgerðaleysi borgaryfirvalda í hálkuvörnum. Runólfur segir þetta vera lýðheilsumál sem verði að njóta forgangs.
Rætt er í blaðinu í dag við aldraðan íbúa í Vesturbænum sem man ekki eftir öðru eins ástandi í borginni í 80 ár.