Rafmagn komst á álver Norðuráls á Grundartanga um klukkan tíu í kvöld. Að sögn Ágústs Hafberg, tengiliðs Norðuráls við fjölmiðla, er verið að keyra álverið upp en það getur tekið nokkrar klukkustundir. Takist það giftusamlega er ekki útlit fyrir mikið tjón.
Ágúst tekur þó fram að rafmagn hafi verið að detta inn og út og því sé ekki útséð með hvort ræsing takist að fullu.
Eins og komið hefur fram má rekja rafmagnsleysið til eldsvoða sem varð í spennistöð Landsnets í Hvalfirði. Spennuhögg vegna þessa olli töluverðum truflunum á rafmagnskerfi á suðvesturhorni landsins.