Mörður Árnason, þingmaður Samfylkingarinnar, stýrði fundi utanríkismálanefndar í dag en þar var m.a. farið yfir viðræður Íslands við Evrópusambandið. Á fundinum var ræddur kaflinn um utanríkismál vegna aðildarferlisins.
„Þetta var í sjálfum sér ekki neinn átakafundur heldur var þetta þriðji fundurinn um utanríkismál, sameiginlegu utanríkisstefnuna og sameiginlegu öryggis- og varnarstefnuna og hvernig þetta allt saman snýr að okkur.“
Spurður um sérstöðu Íslands, m.a. í ljósi þess að Ísland er herlaust land, og um legu landsins og aðra sérstöðu segir Mörður að hafa þurfi það í huga við aðkomu landsins að sameiginlegri öryggis- og varnarstefnu sambandsins. Um undanþágur frá yfirþjóðlegu valdi Evrópusambandsins, til að mynda forgangsáhrifum Evrópugerða fram yfir íslensk lög, segir Mörður slíkt ekki hafa verið rætt né koma til greina.
„Almennt er þetta þannig að við erum að ganga inn í klúbbinn og í honum gilda reglur klúbbsins og í þeim málum sem varða tollabandalagið og innri markaðinn þá hlítum við þeim lagaramma sem Evrópusambandið hefur og það eru engar undanþágur í því. Það erum við sem erum að ganga í Evrópusambandið, ekki Evrópusambandið í okkur.“