Golíat verði aflífaður

Hundur. Mynd úr safni.
Hundur. Mynd úr safni.

Úrskurðarnefnd á vegum umhverfisráðuneytisins hefur staðfest þá  ákvörðun heilbrigðisnefndar Hafnarfjarðar- og Kópavogssvæðis að aflífa skuli hundinn Golíat, sem á heima í Garðabæ.

Nefndin, sem starfar samkvæmt lögum um hollustuhætti og mengunarvarnir, ákvað í október að fresta skyldi því að aflífa Golíat  á meðan farið væri efnislega yfir mál hans.

Heilbrigðiseftirlit Hafnarfjarðar- og Kópavogssvæðis krafðist þess í lok ágúst í síðasta ári að Golíat yrði aflífaður þar sem hann hefði sýnt af sér verulega hættulegt atferli og ítrekað glefsað í gangandi vegfarendur. Dýraeftirlitsmaður fangaði Golíat í ágúst og  kom honum fyrir í geymslu.

Álit lá þá fyrir frá dýralækni, sem taldi að glefs Golíats stafaði frekar af hegðunarvandamáli en grimmd. Hundurinn hefði líklega ekki fengið nægilegt uppeldi og nægilega þjálfun.

Í úrskurði sínum nú segir úrskurðarnefndin, að fyrir liggi upplýsingar um að uppeldi Golíats hafi lítið sem ekkert verið sinnt og verði það að teljast ámælisvert þegar um þriggja ára gamlan hund sé að ræða.

Úrskurðarnefndin segir að það geti ekki haft áhrif á úrlausn málsins hvort þá ógn, sem af hundinum stafi, megi rekja til hegðunarvandamála eða grimmdar af hans hálfu. Því er ákvörðun heilbrigðiseftirlitsins um að aflífa hundinn staðfest.

Ekki kemur fram í úrskurði nefndarinnar af hvaða tegund Golíat er.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert