Ummæli og krafa Kynningarátaks um erfðabreyttar lífverur um afturköllun leyfis Orfs Líftækni er hræðsluáróður, að sögn Björns Lárusar Örvar, framkvæmdastjóra og stofnanda Orf Líftækni. Hann segir enga hættu hafa verið þó plötur hafi fokið af gróðrarstöð fyrirtækisins á Egilsstöðum.
Í kjölfar þess að fimmtán plötur fuku af gróðrarstöð líftæknifyrirtækisins Orfs á Egilsstöðum í veðurofsanum aðfaranótt þriðjudags hafa ýmis umhverfissamtök, undir nafninu Kynningarátak um erfðabreyttar lífverur, farið fram á það við Umhverfisstofnun að hún afturkalli leyfi fyrirtækisins til ræktunar erfðabreyttra plantna í gróðrarstöðinni enda hætta á að erfðabreytt fræ sleppi úr stöðinni.
„Það er talað um að eitthvað gæti sloppið og það sett í neikvætt samhengi eins og þetta sé eitthvað hættulegt. Okkur finnst það vera hreinn og beinn hræðsluáróður. Það er engin hætta á ferðinni jafnvel þó svo eitthvað fari út úr húsi. Þetta er meðhöndlað í fréttum eins og um væri að ræða geislavirkan úrgang og við erum ekki sátt við slíkt umtal.“
Björn bendir á að Evrópusambandið hafi unnið rannsókn og skrifað skýrslu sem kostaði 30 milljarða króna um erfðabreytt matvæli og komist að þeirri niðurstöðu að engin hætta væri á ferðinni.
„Við erum að nota erfðatækni til þess að framleiða eitt nýtt prótein í byggfræinu innan um öll þau þúsunda próteina sem fyrir eru í fræinu. Við fínhreinsum þetta prótein úr fræinu og það er notað í ýmsar vörur, t.d. húðvörur eða við krabbameinsrannsóknir. Það er enginn skaði af þessu jafnvel þó svo fólk eða dýr innbyrði þetta. Ef þú ert kjötæta þá ertu að borða þetta prótein á hverjum degi.“
Þá segir Björn að bygg eigi mjög erfitt uppdráttar hér á landi og hvað þá þetta bygg sem fyrirtækið er að nota því við bestu skilyrði á það erfitt með að vaxa og myndi ekki breiða úr sér þó svo það slyppi út.