Jens hættur á Landspítala

Jens Kjartansson.
Jens Kjartansson.

Jens Kjartansson, yfirmaður lýtalækningadeildar Landspítalans, sagði í dag upp störfum á spítalanum. Haft er eftir honum á vef Ríkisútvarpsins, að ástæðan sé veikindi hans sem hafi ágerst vegna álagsins undanfarnar vikur.

Jens flutti inn sílikonbrjóstapúða frá franska fyrirtækinu Poly Implant Prothese (PIP) og kom þeim fyrir í brjóstum 440 íslenskra kvenna. Í ljós hefur komið, að púðarnir voru gallaðir.

Fimmtíu og tvær konur höfðu í gær ákveðið að taka þátt í málsókn vegna PIP-púðanna. Saga Ýrr Jónsdóttir, héraðsdómslögmaður hjá Vox lögmannsstofu, sem rannsakar mál kvennanna, á von á að þeim fjölgi á næstu dögum.

Hún sagði við Morgunblaðið, að af þessum konum væru yfir tíu sem hefðu fengið það staðfest að þær væru með sprungna púða eða hefðu látið fjarlægja sprungna púða. Flestar þeirra væru með einhver einkenni. 

Málsóknin beinist að eftirlitshlutverki íslenska ríkisins og Jens, þá aðallega ábyrgðartryggingu hans sem dreifingaraðila vörunnar. Saga telur ekkert takmarka það hér á landi að læknar flytji sjálfir inn sín lækningatæki á einkastofur en ef varan veldur tjóni getur dreifingaraðilinn verið ábyrgur.

Yfirlæknum á Landspítalanum er ekki heimilt að flytja inn lækningatæki sjálfir til notkunar á spítalanum. Öðru máli gegnir ef þeir eru með einkastofu úti í bæ eins og í tilfelli Jens.

Björn Zoëga, forstjóri Landspítalans, segir að lækningatækin, í þessu tilfelli PIP-brjóstapúðarnir, sem Jens flutti inn, hafi ekki verið notuð á Landspítalanum. „Við höfum ekki skipt okkur af starfsemi hans á einkastofunni,“ sagði Björn við Morgunblaðið.

Leiðrétt 18.24

Björn Zöega, forstjóri Landspítalans, segir að Jens Kjartansson, yfirmaður lýtalækningadeildar Landspítalans, hafi ekki sagt upp störfum á spítalanum heldur óskað eftir veikindaleyfi til fjögurra mánaða og það hafi verið veitt. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert