Kosið verði um alla ráðherrana

Þingmenn Hreyfingarinnar, Birgitta Jónsdóttir, Margrét Tryggvadóttir og Þór Saari.
Þingmenn Hreyfingarinnar, Birgitta Jónsdóttir, Margrét Tryggvadóttir og Þór Saari. mbl.is

„Ef Alþingi á að endurskoða afstöðu sína í þessu máli finnst okkur rétt að það fái tækifæri til að opna það alveg og endurskoða hugsanlega kæru á hendur öllum ráðherrunum fjórum,“ segir Margrét Tryggvadóttir, þingmaður Hreyfingarinnar.

Hreyfingin hyggst leggja fram þingsályktunartillögu um að endurskoðað verði hvort kæra eigi alla fyrrverandi ráðherrana fjóra sem þingmannanefnd sem skipuð var til að fjalla um skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis taldi að ætti að kæra. Auk Geirs H. Haarde er þar um að ræða Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur, Árna M. Mathiesen og Björgvin G. Sigurðsson.

Margrét segist sjálf í grunninn ekki telja ástæðu til að málið sé endurskoðað yfir höfuð, en ef það verði gert þýði heldur ekki að endurskoða aðeins mál Geirs Haarde, líkt og Bjarni Benediktsson hefur lagt til, heldur verði að skoða málið í heild. „Ég sé ekki að það sé nokkuð nýtt í þessu máli sem gefi ástæðu til þess. En ein af meginrökunum fyrir því að Alþingi ætti að fella þessa ákæru niður eru að Geir sé einn í þessu, en ekki allir fjórir, og því finnst okkur að ef það á að endurskoða þetta verði þetta allt að vera uppi á borðinu.“

Þingsályktunartillaga Bjarna Benediktssonar er á dagskrá Alþingis 20. janúar. Margrét segir að tillaga Hreyfingarinnar sé tilbúin og verði lögð fram um leið og þing kemur saman. „Ég held að ef þetta kæmi til atkvæðagreiðslu myndu atkvæði falla öðruvísi, í fyrsta lagi vegna þess að þingið er öðruvísi skipað.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert