Götulýsing milli Snorrabrautar og Höfðatúns breyttist í dag þegar settir voru upp svonefndir ljóstvistar í stað hefðbundinna kvikasilfurslampa. Er þetta gert í tilraunaskyni en innflutningur og sala á kvikasilfursperum verður bönnuð frá og með 1. apríl 2015. Um 46% lampa í Reykjavík eru kvikasilfurslampar.
Til útskýringar skal tekið fram að ljóstvistar eru perur með ljósdíóðum, eða LED-perur. Nýju lamparnir, sem eru með átta díóðum, nota umtalsvert minni orku en gamla lýsingin og gert er ráð fyrir 60% orkusparnaði við breytinguna. Skipt verður út gömlum 250W natríum Philips-lömpum með kúptri ljóshlíf og í staðinn kemur Philips-lampi af gerðinni „Copenhagen“ með díóðum sem nota 91W.
Reykjavíkurborg stendur að þessu verkefni í samvinnu við Philips á Íslandi, en Orkuveita Reykjavíkur sá um uppsetningu lampanna. Þetta eru ekki fyrstu ljóstvistarnir í borginni því settir voru upp 22 lampar með ljóstvist í mars síðastliðnum víðs vegar um Reykjavík, s.s. á hluta Hringbrautar, hluta Skeiðarvogs og í Grafarvogi.
Fá sveitarfélög eru þó farin að gefa banninu sem tekur gildi 2015 gaum en 31 þúsund lampar á ljósastaurum hér á landi eru gerðir fyrir kvikasilfursperur.