Miklar hækkanir hafa orðið á gjaldskrám leikskóla milli ára. Þetta er niðurstaða Verðlagseftirlit ASÍ sem kannaði breytingar á gjaldskrám leikskóla með fæði hjá 15 stærstu sveitafélögum landsins.
Aðeins tvö sveitafélög af 15 hafa ekki hækkað hjá sér verðskrána síðan í fyrra, en það eru Ísafjarðabær og Seltjarnarneskaupstaður. Mesta hækkunin á almennri gjaldskrá fyrir átta tíma gæslu með fæði er hjá Reykjanesbæ um 16%, Hafnarfirði um 15% og Reykjavík um 13%. Níu tíma gæsla hefur einnig hækkað töluvert eða um allt að 23%. Forgangshópar eru ekki undanþegnir gjaldskrárhækkunum sveitarfélagana.
40% verðmunur er á hæstu og lægstu gjaldskrám sveitarfélagana fyrir 8 tíma vistun með fæði. Hæsta gjaldið fyrir þessa þjónustu er 34.342 kr. hjá Ísafjarðabæ og lægst hjá Reykjavíkurborg 24.501 kr. Mest hækkaði gjaldskráin hjá Reykjanesbæ en hækkunin þar nemur 16%, fer úr 27.130 kr. í 31.480 kr. sem er hækkun um 4.350 kr. á mánuði. Hafnarfjörður hefur hækkað um 15% úr 26.070 kr. í 30.023 kr. og Reykjavík um 13% úr 21.764 kr. í 24.501 kr. eða um 2.737 kr. á mánuði.