Tónlistarmaðurinn Örn Elías Guðmundsson, eða Mugison, hagnaðist um 21,7 milljónir króna af sölu plötu sinnar Hagléls á síðasta ári. Þetta kemur fram á vef Viðskiptablaðsins og boðuð er frekari umfjöllun í blaðinu sem kemur út á morgun.
Fram kemur á vefnum, að samkvæmt útreikningum Viðskiptablaðsins hafi tekjur Mugison af hverjum seldum diski verið í kringum 1.550 krónur. Heildartekjur af sölunni hafi því numið rúmlega 43 milljónum króna. „Að teknu tilliti til kostnaðar fellur í hlut listamannsins um 775 krónur af hverjum diski. Það sem eftir stendur fyrir Mugison er því 21,7 milljónir króna.“
Mugison seldi um 28 þúsund eintök af plötu sinni og bendir Viðskiptablaðið á að það sé töluvert meira en seldist af bókum Arnalds Indriðasonar og Yrsu Sigurðardóttur, en þau seldu um tuttugu þúsund eintök hvort.