Um áramótin hætti ríkið að niðurgreiða fyrstu glasafrjóvgunarmeðferð fólks. Kostnaðurinn hækkar úr 250 þús. kr. í 375 þús. kr. fyrir meðferðina sem ber ávöxt í 20% tilfella. Þetta setur verulegt strik í reikninginn fyrir fólk sem fer í gegnum ferlið.
Samtökin Tilvera, sem vekja athygli á málum tengdum ófrjósemi, hafa bent á að fyrir breytinguna hafi Íslendingar verið aftastir í röðunni af Norðurlöndunum hvað þessi mál varðar og nú dragi enn frekar í sundur. Í Danmörku var t.a.m. nýlega ákveðið að fyrstu þrjár aðgerðir yrðu að nýju gjaldfrjálsar. Stjórnvöld gera ráð fyrir að ríkið spari um 30 milljónir á ári með niðurskurðinum.