Sú athygli sem þingsályktunartillaga Sivjar Friðleifsdóttur fékk í erlendum fjölmiðlum hefur skilað sér í því að tvær umsagnir bárust Alþingi frá erlendum fyrirtækjum eða samtökum. Meðal annars var fjallað um tillögu Sivjar og sex annarra þingmanna í tímaritinu TIME og einnig í breska dagblaðinu Guardian.
Fréttavefur Morgunblaðsins greindi frá því í desember að Alþingi hefði borist umsögn vegna tillögunnar frá bandaríska fyrirtækinu Buisness Civil Liberties í Washington-borg. Í henni var Alþingi alvarlega varað við að samþykkja tillöguna.
En einnig barst umsögn frá European Travel Retail Council og í henni er fjallað um neikvæð áhrif þess að banna sölu tóbaks í fríhöfnum landsins. Í umsögninni segir að sölubann á íslenskum flughöfnum muni hafa alvarleg áhrif enda færist salan þá til annarra flughafna, s.s. þaðan sem viðkomandi ferðalangar koma. Eru þingmenn beðnir um að íhuga vel afstöðu sína og taka ákvörðun út frá hagsmunum íslenskra fyrirtækja og starfsfólks þeirra, sem ella gæti misst vinnu verði tillagan samþykkt.
Álfheiður Ingadóttir, formaður velferðarnefndar Alþingis og einn flutningsmanna tillögunnar, sagði við mbl.is í desember að tóbaksframleiðendur væru gríðarlega sterkur hagsmunaaðili og það væri ekkert nýtt. Hún kannaðist ekki við að þingnefndum hefðu borist umsagnir af þessum toga áður.