„Eins og ég les í aðstæður þá telur fólk mikilvægt að samningarnir haldi, sérstaklega vegna þess að Samtök atvinnulífsins hafa staðið við sinn hluta samkomulagsins. Hins vegar er gríðarleg kergja út í framgöngu ríkisstjórnarinnar í þeim málum sem tengjast yfirlýsingunni frá 5. maí, sem ekki hefur verið staðið við.“
Þetta segir Stefán Einar Stefánsson, formaður VR, í Morgunblaðinu í dag um fund sem fulltrúar ASÍ áttu í gær með þremur ráðherrum um efndir loforða í yfirlýsingu stjórnvalda vegna kjarasamninganna 5. maí sl. Félögin innan ASÍ íhuga að segja samningunum upp en taka þarf ákvörðun um uppsögn í síðasta lagi á föstudag í næstu viku.
Samtök atvinnulífsins, SA, sendu forsætisráðherra harðort bréf í gær þar sem ríkisstjórnin er sökuð um að hafa ekki efnt 24 af 36 atriðum sem samtökin tóku saman úr yfirlýsingunni frá 5. maí sl. Eru skattahækkanir einnig gagnrýndar. Í kjölfarið sendi forsætisráðherra út yfirlit með 44 atriðum úr yfirlýsingunni, þar sem 24 þeirra eru sögð afgreidd og 20 í vinnslu.