Kjúklingar duttu af bíl

Kjúklingarnir voru á leið til slátrunar á Hellu.
Kjúklingarnir voru á leið til slátrunar á Hellu.

Yfir 100 kassar með nálægt 2.000 kjúklingum féllu af flutningabíl sem var á leið með kjúklinga til slátrunar á Hellu í morgun. Dyr á bílnum opnuðust og duttu kjúklingarnir út um þær. Bílstjórinn varð ekki var við þetta fyrr en hann var kominn að sláturhúsinu.

Um 2/3 kjúklinganna duttu af flutningabílnum. Bíllinn var að koma frá kjúklingabúinu á Ásmundarstöðum. Þegar hann tók beygjuna frá bænum og inn á þjóðveg 1 opnuðust dyr á bílnum og duttu margir kassar út. Bílstjórinn hélt áfram ferð sinni. Við Landvegamót duttu fleiri kassar á veginn og þegar hann kom á hringtorgið við Hellu féllu enn kassar með kjúklingum á veginn.

Í fyrstu var talið að einungis hefðu kjúklingar dottið af bílnum í hringtorginu, en síðar kom í ljós að mun fleiri lágu á veginum nærri Ásmundarstöðum.

Að sögn lögreglu opnuðust kassarnir ekki og ekki þurfti að loka veginum. Eitthvað af kjúklingum drapst við óhappið en þó ekki mikið. Starfsmenn kjúklingasláturhússins og búsins á Ásmundarstöðum sáu um að taka kassana upp af veginum og koma kjúklingunum í sláturhúsið.

Matthías Guðmundsson, framkvæmdastjóri Reykjagarðs, segir að ástæða óhappsins sé sú að ekki hafi verið tekið rafmagn af lyftu bílsins og þegar bíllinn tók beygju við Ásmundarstaði hafi kassastæða rekist í takka og dyr á bílnum opnast. Matthías segir slæmt að þetta skuli hafa gerst og fyrirtækið muni í framhaldinu fara yfir verkferla til að tryggja öryggi við flutninga á sláturfuglum.

Matthías segir að vel hafi gengið að ná fuglunum upp og mjög lítið af kjúklingum hafi drepist.

Þetta er í annað skipti á skömmum tíma sem kjúklingar lenda í ógöngum á leið til slátrunar, en flutningabíll með tengivagn fór út af veginum efst í Norðurárdal á mánudag. Þar var vont veður og ófærð. Björgunarsveitir báru um 6.000 kjúklinga úr bílnum sem fór út af og í aðra flutningabíla. Um helmingur kjúklinganna drapst.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert