Landlæknisembættið og Lyfjastofnun segir að það sé mikilvægt að fólk geri sér grein fyrir því að PIP-brjóstafyllingar séu fölsuð vara. Ekki sé um að ræða gallaða vöru heldur sé um að ræða klárt lögbrot.
„Sá læknir sem flutti inn og notaði PIP-fyllingarnar gerði það í góðri trú enda varan vottuð af þar til bæru vottunarfyrirtæki og CE-merkt eins og önnur lækningatæki sem heimilt er að nota á Evrópska efnahagssvæðinu,“ segir í samantekt sem landlæknisembættið og Lyfjastofnun hafa sent frá sér um málið.
Þá segir að fölsuðu brjóstafyllingarnar hafi innihaldið iðnaðarsílíkon en ekki sílíkon ætlað til notkunar í lækningatæki.
Um 400 konur hafa fengið hafa PIP-brjóstafyllingar á Íslandi. Fram kemur í tilkynningu að embætti landlæknis safni nú nákvæmum upplýsingum um fjölda kvenna og um þekkt tilvik um rof fyllinganna eða ertingu þeirra. Sömu upplýsinga sé safnað um aðrar brjóstafyllingar.
„Embætti landlæknis er að rannsaka umfang brjóstastækkunaraðgerða hér á landi. Aflað er m.a. upplýsinga um fjölda aðgerða, tíðni leka, fjölda brottnáma fyllinga og endurísetninga. Hefur verið óskað eftir þessum upplýsingum frá lýtalæknum og að þær berist ekki síðar en 13. janúar 2012.
Þessar upplýsingar munu varpa ljósi á umfang slíkra aðgerða hér á landi og leggja grunn fyrir upplýsta ákvarðanatöku í framhaldinu.
Lyfjastofnun er að afla upplýsinga um fyrirtæki sem hafa flutt eða flytja inn lækningatæki. Verið er að undirbúa gagnagrunn þar sem fyrirhugað er að skrá alla þá sem flytja inn lækningatæki og hvaða lækningatæki eru flutt inn. Þá er í undirbúningi vefeyðublað sem hægt verður að tilkynna aukaverkanir eða galla vegna lækningatækja til stofnunarinnar beint af vefnum,“ segir í samantektinni.
Starfsmenn landlæknisembættisins og Lyfjastofnunar munu áfram sem hingað til veita almenningi upplýsingar sem byggjast á bestu þekkingu og reynslu varðandi þetta mál.
„Það á rætur í glæpsamlegri starfsemi fransks framleiðanda á brjóstafyllingum og læknar hafa því keypt falsaða vöru í góðri trú. Áfram verður fylgst með málinu í samvinnu við evrópskar samstarfsstofnanir og brugðist við eftir því sem við á,“ segir í tilkynningu.