Ólína Þorvarðardóttir, þingmaður Samfylkingarinnar, hefur óskað eftir sérstakri umræðu í þinginu um ábyrgð og eftirlit hins opinbera gagnvart einkarekinni heilbrigðisþjónustu í ljósi sílikonpúðamálsins.
Á bloggvef sínum segir Ólína mörg hneykslismál hafa komið upp í umhverfis- og heilbrigðismálum Íslendinga.
„Ekki fyrr hafa menn gripið andann á lofti vegna kadmíummengunar í áburði sem dreift var á tún sl. sumar – mál sem kom fast á hæla díoxíðmengunarmálsins nokkrum mánuðum fyrr – en þetta sílikonpúðamál kemur upp.
Öll þessi mál afhjúpa með nöturlegum hætti öryggisleysi íslensks almennings gagnvart opinberum stofnunum sem eiga að veita íslenskum neytendum og íbúum almennt vernd gegn umhverfismengun og heilsuspillandi efnum. Jafnvel inni í heilbrigðiskerfinu er vá fyrir dyrum, þegar iðnaðarmenguninni er beinlínis komið fyrir inni í líkömum fólks, ef marka má fréttir af sílikonpúðamálinu.
Sílikonpúðamálið vekur margar áleitnar spurningar um siðferði, eftirlit og ábyrgð. Það vekur spurningar um einkarekna heilbrigðisþjónustu almennt, og ábyrgð hins opinbera á því sem læknar aðhafast á einkastofum.
Málið sýnir glöggt hvað af getur hlotist þegar læknar bregða sér í fleiri en eitt hlutverk og bera kápuna á báðum öxlum. Hér höfum við lækni sem sjálfur flytur inn sílikonpúða sem hann svo notar við aðgerðir á sínum eigin sjúklingum. Sjúklingurinn borgar fyrir efnið og aðgerðina. Læknirinn á fjárhagslegra hagsmuna að gæta, og þar með er hann ekki lengur sá verndarskjöldur sjúklingins sem hann þyrfti að vera. Hann er ekki gagnrýninn milliliður milli framleiðanda efnanna/tækjanna sem notuð eru, heldur er hann beinn hagsmunaaðili. Um leið verður ljóst að aðgerðin getur tæplega talist velferðar- eða heilbrigðismál. Hún er bara harður bissness,“ skrifar Ólína.