Morgunblaðið birti í dag umfjöllun um ófærð í Reykjavík og víðar í áranna rás. Þar var birt meðfylgjandi mynd, sem var í Morgunblaðinu 1. febrúar 1952. Myndina tók Ólafur K. Magnússon ljósmyndari. Morgunblaðið og mbl.is leita nú til lesenda hvort einhver þeirra þekkir drenginn á myndinni.
Yfirskrift myndarinnar af barninu í Morgunblaðinu er: „Litli borgarinn“. Í myndatexta segir: „Ungi borgarinn fagnaði snjónum. Hér sést lítill snáði skemmta sér vel í tröðunum við húsið heima.“
En hver var litli snáðinn? Af myndinni að dæma gæti hann hafa verið kominn á annað ár hinn 1. febrúar 1952 og því fæddur 1951 eða seint á árinu 1950. Þeir sem telja sig þekkja drenginn eru vinsamlegast beðnir að senda upplýsingar á netfangið netfrett@mbl.is.
Jafnfallinn snjór í Reykjavík var 48 sentimetrar hinn 1. febrúar 1952. Ólafur K. Magnússon ljósmyndari tók myndir af fannferginu í borginni sem birtust í Morgunblaðinu þennan dag.