Vegagerðin hefur sent frá sér aðvörun en hún bendir á að það verði víða flughált á vegum fljótlega eftir að það nái að hlána í nótt og í fyrramálið.
Nú er hálka er á Sandskeiði. Þá er hálka og skafrenningur á Hellisheiði og í Þrengslum. Hálkublettir og skafrenningur er á Kjalarnesi. Hálka er á flestum öðrum leiðum á Suðurlandi.
Hálka er á flestum leiðum vestanlands en snjóþekja og skafrenningur er á Fróðárheiði og hálka og skafrenningur á Vatnaleið.
Á Vestfjörðum er hálka á flestum leiðum.
Norðanlands er hálka á flestum leiðum. Snjóþekja og skafrenningur er á milli Kópaskers og Raufarhafnar um Hófaskarðsleið.
Austan- og suðaustanlands er hálka eða hálkublettir á flestum leiðum.
Ábendingar frá veðurfræðingi fyrir kvöldið og nóttina:
Versnandi veður verður suðvestan- og vestanlands í kvöld. Hríðarbylur seint í kvöld á Hellisheiði og í Þrengslum, en hlánar og fer fljótlega í slyddu og rigningu. Svipað á öðrum fjallvegum vestan- og norðvestantil, snjókoma í fyrstu í nótt, en síðan gerir leysingu um land allt. Flughált verður víða á vegum fljótlega eftir að nær að hlána í nótt og fyrramálið.