Í skýrslu frá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum sem birt er á vef fjármálaráðuneytisins í dag segir auka þurfi ábyrgð og aga við meðferð opinberra fjármuna. Því þurfi að endurskoða lög um fjárreiður ríkisins, bæði hvað varðar gildissvið og form laga, leggja meiri áherslu á undirbúning fjárlagagerðar, breyta verkaskiptingu fjármálaráðuneytis og fagráðuneyta, endurskilgreina samspil löggjafar- og framkvæmdarvalds við mótun fjárlaga, auka eftirlitshlutverk Alþingis, einfalda framsetningu fjárlaga verði, sjá til þess að form reikningshalds taki mið af alþjóðlegum stöðlum og að aukin áhersla verði lögð á ítarlegri áætlanagerð og stefnumörkun til skemmri og lengri tíma.
Lögin taki til almennrar áætlanagerðar
Í tilkynningu frá fjármálaráðuneytinu segir að fjármálaráðherra hafi í nokkurn tíma unnið að endurskoðun laga um fjárreiður ríkisins. Gildandi lög nái í meginatriðum yfir undirbúning og framkvæmd fjárlaga, reikningshald ríkisins og að nokkru leyti yfir áætlanagerð og stefnumörkun, „en talin hefur verið nauðsyn á að víkka gildissvið laga um fjárreiður ríkisins, m.a. þannig að þau taki til almennrar áætlanagerðar í opinberum fjármálum, fjárlagagerðar, framkvæmdar fjárlaga og fjárstjórnar- og eftirlitshlutverks Alþingis. Tryggja þarf að stjórnvöld á hverjum tíma leggi fram heildstæða ríkisfjármálastefnu til lengri tíma, sem taki mið af horfum og markmiðum í efnahagsmálum. Til þess að ná þessu markmiði þarf að endurskoða alla þætti gildandi laga um fjárreiður ríkisins“, segir í tilkynningu ráðuneytisins.
Kynnir nýtt frumvarp í maí
Fjármálaráðherra stefni að því að kynna ríkisstjórninni frumvarp til laga um opinber fjármál, sem verði lagt fyrir Alþingi í maí á þessu ári. Sé miðað við að ný lög leysi af hólmi gildandi lög um fjárreiður ríkisins frá 1997, en þau hafi verið mikið framfaraskref á sínum tíma. Ný lög eigi ekki síst að tryggja aukna ábyrgð og festu í fjármálum hins opinbera sem og að langtímasjónarmið séu lögð til grundvallar allri fjárlaga- og áætlanagerð.
Í tilkynningunni kemur fram að undirbúningur að endurskoðun fjárreiðulaga hófst vorið 2011 þegar fjármálaráðherra sendi beiðni til Alþjóðagjaldeyrissjóðsins um að sjóðurinn gerði tæknilega úttekt á stöðu mála hér á landi og setti fram hugmyndir um úrbætur.
Þá segir: „Sjóðurinn varð við þessari beiðni og hafa fulltrúar sjóðsins og starfslið fjármálaráðuneytisins unnið að gerð meðfylgjandi skýrslu á frá því í október síðastliðnum. Haldinn var fjöldi funda með innlendum aðilum s.s. fjárlaganefnd, fulltrúum fagráðuneyta, fjármálastjórum sveitarfélaga, samráðsnefnd ríkis og sveitarfélaga um efnahagsmál og forstöðumönnum ríkisstofnanna. Aðstoð Alþjóðagjaldeyrissjóðsins gerir fjármálaráðuneytinu kleift að hafa aðgang að sem flestum viðurkenndum sjónarmiðum sem æskileg eru þegar ný löggjöf um opinber fjármál er undirbúin.“