Endanleg ábyrgð hjá stjórn FME

mbl.is/Sigurgeir

Aðalsteinn Leifsson, formaður stjórnar Fjármálaeftirlitsins, segir að strax þann 18. nóvember sl. hafi verið ákveðið að fela tveimur óháðum sérfræðingum að fara yfir álit Andra Árnasonar hrl. og gögn málsins og gefa sjálfstætt álit, á sama tíma og Andra var falið að kanna hvort eitthvað nýtt hefði komið fram í  umfjöllun Kastljóss um hæfi Gunnars Andersen, forstjóra FME.

„Á fundi okkar í dag  ákváðum við að fela Ástráði Haraldssyni hæstaréttarlögmanni og Ásbirni Björnssyni endurskoðanda þetta verkefni. Þannig að við höldum okkur við þessa áætlun og klárum okkar umfjöllun,“ segir Aðalsteinn.

Andri hafi komist að þeirri niðurstöðu að hvorki væri neitt nýtt að finna í umfjöllun Kastljóss né þeim gögnum er aflað var í framhaldi af þættinum, sem geti snert hæfi Gunnars.

Þegar spurt er af hverju hafi verið ákveðið að láta óháða sérfræðinga fara yfir álit Andra segir Aðalsteinn: „Vegna þess að við vildum sýna að við athugum okkar mál af sömu einurð og fagmennsku og önnur mál. Eins og mál sem snúa að eftirlitsskyldum aðilum eða önnur mál sem við höfum til umfjöllunar.“ 

Með því að fela tveimur sérfræðingum að fara yfir verk Andra sé hann ekki aðeins að fara yfir eigin verk, heldur komi fersk augu að málinu. „Þá ætti að vera hafið yfir allan vafa að faglega er staðið að málum,“ segir Aðalsteinn.

Þegar spurt er skil á áliti óháðu sérfræðinganna segir Aðalsteinn að ekki hafi verið sett ákveðin tímamörk á þá en hins vegar óskað eftir að þeir flýttu verkinu eins og hægt er.

Um það hvort ekki séu nein vafaatriði í þeim gögnum er farið var yfir segir Aðalsteinn að niðurstaða Andra hafi verið mjög skýr. „Núna erum við búin að óska eftir þessari athugun tveggja annarra sérfræðinga og þá gefum við þeim svigrúm til að fara yfir það áður en við drögum endanlegar ályktanir,“ segir Aðalsteinn. „Þegar það liggur fyrir munum við tjá okkur um þetta, vegna þess að endanleg ábyrgð er alltaf í höndum stjórnarinnar og við firrum okkur ekki þeirri ábyrgð.“

Aðalsteinn Leifsson, stjórnarformaður Fjármálaeftirlitsins.
Aðalsteinn Leifsson, stjórnarformaður Fjármálaeftirlitsins.
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert