Leiguþyrlan sem leysa mun björgunarþyrlu Landhelgisgæslunnar, TF-LÍF, af hólmi er ekki búin til flugs með nætursjónaukum. Upp geta komið þannig aðstæður að það hamli björgunargetu Gæslunnar en þess ber að geta að hin björgunarþyrlan, TF-GNÁ, er með nætursjónauka.
Ríkisstjórnin hefur ákveðið að taka á leigu sams konar þyrlu frá Noregi til að leysa TF-LÍF af, þannig að tvær björgunarþyrlur verði hér til taks. Hún verður afhent Gæslunni um næstu mánaðamót og er vonast til að hún verði tilbúin til notkunar um eða upp úr miðjum mánuðinum.
Samkvæmt upplýsingum Landhelgisgæslunnar er leiguþyrlan sambærileg íslensku björgunarþyrlunum að öðru leyti en því að ekki eru aðstæður til að nota nætursjónauka á flugi. Hún hefur því ekki sömu björgunargetu að nóttu til og hinar þyrlurnar.